Skoðun

Sumargleymska

Davíð Þorláksson skrifar
Tillögur um að lengja skólaárin í grunnskólum og fækka þeim í níu hafa ekki fallið í kramið hjá öllum. Einhver spurði hvort það ætti nú að fara að hafa jóla- og sumarfríin af börnunum. Fríin eru þó lengri hér en í mörgum öðrum þróuðum ríkjum. Enska tímaritið Economist fjallaði fyrr í mánuðinum um rannsóknir sem sýna að löng frí hafa slæm áhrif á námsárangur barna. Börnin gleyma einfaldlega því sem þau lærðu, eða allt að fjórðungi þess sem þau lærðu síðasta vetur.

Þetta á sérstaklega við um börn fátækra og innflytjenda sem hafa ekki sömu tækifæri til námslegrar örvunar utan skólans. Sumargleymskan skýrir allt að tvo þriðju af muninum á námsárangri barna af fátækum og efnameiri heimilum. Meðalgrunnskólabarn er um 179 daga í skólanum á ári. Hægt væri að stytta námstímann um eitt ár með því að lengja skólaárið um 17 kennsludaga, eða þrjár og hálfa viku. Skóladagarnir væru þá orðnir 196. Á sama tíma er venjulegur fullorðinn launamaður í fullu starfi um 226 daga á ári í vinnu, eða sex vikum lengur.

Lengra skólaár myndi ekki aðeins skila sér í betri námsárangri heldur myndi talsverð hagræðing verða af styttingunni sem mætti endurfjárfesta inni í kerfinu og jafnvel skila þannig enn betri árangri. Þetta myndi einnig draga úr skorti á kennurum. Þörf fyrir kennara myndi minnka um 500. Í dag eru um 700 kennarar 60 ára og eldri. Stytting grunnskólans væri augljóst framfaraskref fyrir bæði skólabörnin og þjóðarbúið og myndi stuðla að auknum jöfnuði.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×