Tveggja daga leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins lauk í Brussel í gær þar sem Donald Trump forseti Bandaríkjanna fullyrti að bandalagsþjóðirnar hafi farið að tilmælum hans um aukin framlög til varnarmála. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sat fundinn og segir að mikil átök hafi verið á síðara fundi leiðtoganna.
Markmið miðast við 2024
„Það var í raun og veru engin ný ákvörðun tekin á þessum fundi. Það var samþykkt fyrir nokkrum árum að ríkin skyldu stefna að því að verja tveimur prósentum af vergri þjóðarframleiðslu til varnarmála, til Atlantshafsbandalagsins. Ég tek fram að það á ekki við um Ísland og okkar sérstaða sem herlausrar þjóðar hefur verið viðurkennd í þessu samhengi. Það er engin ný ákvörðun sem hefur verið tekin um þetta. Þetta markmið miðast við 2024,“ segir Katrín.Hins vegar hafi komið fram á fundinum að þjóðirnar hafi verið að auka framlög sín verulega undanfarið, þótt áfram sé byggt á markmiði NATO ríkjanna frá árinu 2014 um að framlög bandalagsríkjanna verði 2 prósent af landsframleiðslu.
„Og það kann að vera að þetta markmið náist fyrr en sett var. Það hefur komið fram að það hafa verið misvísandi skilaboð frá fundinum. En þarna held ég að ég sé sammála meirihluta fundarmanna um hvað gerðist í raun og veru,“ segir Katrín.

Óvæntur fundur inni í dagskrá
„Það var auðvitað hrist upp í fundinum að því leytinu til að það var haldinn óvæntur fundur inni í miðri fundardagskrá. Það er að segja á síðara degi fundarins var skotið á óvæntum fundi um þessi framlaga mál þar sem var tekist á og það lá alveg fyrir að það var töluverð spenna í loftinu. Ekki síst milli Bandaríkjanna og Þýskalands þar sem kannski má segja að að verið hafi áþreifanlegasta spennan og það spilar auðvitað margt annað þar inn í,“ segir Katrín.Þar á meðal staðan í samskiptum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins í tollamálum og andstaða Trump við nýja gasleiðslu frá Rússlandi til Þýskalands.

„Við töluðum um hugðarefni mitt sem er kjarnorkuafvopnun. En hann náði líka að beina talinu að sjónvarpi. Þannig að hann ræddi aðeins afþreyingariðnaðinn og gerði hann að sérstöku umtalsefni.“
Hvað sagði hann um það?
„Hann sló svona á létta strengi með það. En ég hvatti mjög til kjarnorkuafvopnunar á þessum fundi og sagði að það væri mjög gott mál að það væri verið að hvetja til hennar á Kóreuskaga en það þyrfti að horfa víðar. Og þar þyrfti Atlantshafsbandalagið að gera mun betur,“ segir Katrín Jakobsdóttir.