Það er spáð glampandi sól og 31 stiga hita í Volgograd í dag þegar íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir því nígeríska á HM í Rússlandi.
Veðrið gerir því mönnum aðeins erfiðara um vik að spila knattspyrnu og kannski sérstaklega íslensku strákunum þar sem þeir eru síður vanir því að spila í svo miklum hita og sól. Við erum, jú, frá Íslandi.
Nígerískir fjölmiðlar eru meðvitaðir um þetta og virðast vissir um að þessi mikli hiti í Volgograd muni hjálpa þeirra mönnum.
„Ef eitthvað er að marka veðurspána þá gæti verið á brattann sækja fyrir Ísland í þessum erfiðu veðuraðstæðum,“ segir á vefnum Guardian.ng.
Tekið er í sama streng á vefnum Premiumtimes.ng:
„Veðurspáin gefur til kynna að hitinn gæti verið á milli 32 og 35 stig sem er eitthvað sem ætti að hjálpa Ofurörnunum,“ en Ofurernir, eða Super Eagles, er gælunafn nígeríska landsliðsins.

