Um 86% þeirra sem svöruðu launakönnun Flóabandalagsins á pólsku sem gerð var á síðasta ári sögðust hvorki þiggja húsnæðisbætur né vaxtabætur. Una Jónsdóttir deildarstjóri leigumarkaðsmála hjá Íbúðarlánasjóði segir að aðstæður erlendra ríkisborgarar á leigumarkaði hér á landi séu bágbornar.
„Það er í raun og veru sláandi að sjá hversu lágt hlutfall erlendra ríkisborgara þiggja húsnæðisbætur. Getur verið vísbending um að þau séu ekki nægilega upplýst um réttindi sín hér á landi.“ segir Una Jónsdóttir.
Mikilvægt að fræða þennan hóp
Una segir að mjög margir erlendir ríkisborgarar hafi flutt til landsins á síðasta ári en aðfluttir umfram brottflutta hér á landi hafi verið átta þúsund meðan mannfjöldaaukningin var um tíu þúsund. Mikilvægt sé að fræða þennan hóp um réttindi sín.„Þannig að við teljum mikilvægt að miðla upplýsingum til leigjenda svo menn séu vel upplýstir um réttindi sín og skyldur á leigumarkaði. Það stendur til að útbúa kynningarefni fyrir leigutaka og leigusala. Svo allir séu upplýstir um gildandi leikreglur,“ segir Una.
Una segir að ekki hafi verið reiknað út af hversu miklum fjármunum erlendir ríkisborgarar verði af vegna þessa en það verði gert í framhaldinu
„Í takt við nýtt hlutverk Íbúðarlánasjóðs þá stendur til að komast til botns í þessu máli,“ segir Una í lokin.