Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði í fyrradag akstur rútubílstjóra vegna gruns um að hann æki undir áhrifum fíkniefna. Rútan var þá á ferð í umdæminu og var fullsetin farþegum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.
Þegar rætt var við bílstjórann styrktist grunur lögreglu um að hann væri undir áhrifum fíkniefna. Bílstjórinn var því handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem fíkniefnaneysla hans var staðfest með sýnatöku.
Rútan var skilin eftir á vettvangi og leiðsögumaður í henni látinn vita af því að annar bílstjóri væri á leiðinni til að taka við akstrinum.
Þá framvísaði ökumaður, sem lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af á Þjóðbraut um helgina, erlendu ökuskírteini sem reyndist vera falsað. Í ljós kom að hann hafði verið sviptur ökuréttindum. Ökumaðurinn reyndist einnig undir áhrifum fíkniefna.
Ók undir áhrifum fíkniefna með fulla rútu af farþegum
Kristín Ólafsdóttir skrifar
