Mattis er fyrsti varnarmálaráðherra Bandaríkjanna sem fer í opinbera heimsókn til Kína frá árinu 2014. Mikil spenna hefur verið í samskiptum ríkjanna að undanförnu, ekki síst vegna tollastríðsins sem hófst í upphafi þessa árs.
Þá hafa málefni eyja í Suður-Kínahafi verið mikið þrætuepli á alþjóðavettvangi. Kínverjar gera tilkall til eyjanna, þar sem þeir hafa meðal annars reist voldugar herstöðvar, í mikilli óþökk annarra ríkja Austur-Asíu. Þá hafa Bandaríkjamenn í gegnum tíðina sakað Kínverja um að búa til gervieyjar og byggja þar upp aðstöðu til að tryggja enn fremur yfirráð sín á svæðinu.
Xi ítrekaði að Kínverjar væru friðsæl þjóð en undirstrikaði að þeir myndu ekki gefa eftir neitt af því landsvæði sem þeir teldu réttilega þeirra. „Við getum ekki glatað einni tommu af því landsvæði sem forfeður okkar skildu eftir,“ er haft eftir Xí í kínverskum miðlum. Hann bætti þó við að Kínverjum „langaði þó ekkert í“ eignir eða landsvæði annarra þjóða.
Um Suður-Kínahaf liggja mikilvægar og verðmætar siglingaleiðir. Þar að auki er talið að á hafsbotninum kunni að finnast mikið magn olíu og jarðgass.
Mattis mun næsta funda með stjórnvöldum í Suður-Kóreu og Japan.