Skoðun

Náttúran tekur þátt í Ég líka

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Þegar við mannskepnurnar hyggjumst hrinda í framkvæmd hugmyndum sem runnar eru undan oflæti okkar kann náttúran ýmis brögð til að stöðva óvitaskapinn. Ég var ungur þegar ég komst að þessu en í þá daga var diskótek í skólanum á föstudögum og einn sunnudaginn var svo uppi á mér typpið að ég lagði á ráðin um að taka stúlku eina á löpp sem í þá daga var hvers drengs draumur. Var ákafinn svo mikill að ég kom ekki auga á þá staðreynd að þetta væri feigðarflan.

Þennan sunnudag sá ég í huga mér hvernig ég myndi nálgast hana með svipinn hans Clints Eastwood framan í mér, sjarmera hana upp úr skónum og loks þegar hún væri farin að skjálfa í hnjánum myndi ég bjóða henni í bíó.

Á mánudag var ég strax farinn að finna fyrir þunga þessara ráðagerða og á þriðjudaginn var ég farinn að skjálfa í hnjáliðum. Á miðvikudeginum kviknaði í hausnum á mér þegar ég mætti henni á skólaganginum. Á fimmtudaginn stappaði ég hins vegar í mig stálinu á ný. Það var því töggur í mér þegar ég vaknaði á föstudagsmorguninn örlagaríka, fór ég inn á salerni og þvoði mér í framan en þá blasti við mér þessi risavaxna bóla sem veifaði mér frá nefbroddinum. Ekki bætti úr skák þegar karl faðir minn gerði því skóna að ég þyrfti að fara með hana niður á Hagstofu til að fá fyrir hana kennitölu. Ég hætti við áformin svo þar sparaði náttúran mér og stúlkunni mikið ómak.

Eftir Ég líka byltinguna hefur þetta svo bara aukist, ég fékk til dæmis bólu á nefið nýverið. Þó stóð ekkert meira til en að vera kammó við konuna í bakaríinu.




Skoðun

Sjá meira


×