Enkeladus hefur lengi verið talið einn mest spennandi hnötturinn í sólkerfinu frá því að Cassini-geimfarið sáluga kom auga á vatnsstróka sem gusu upp um sprungur í ísilögðu yfirborði þessa sjötta stærsta tungls Satúrnusar.
Rannsóknir hafa síðan leitt í ljós að haf fljótandi vatns er líklega að finna undir nokkurra kílómetra þykkri ísskorpu. Það opnaði möguleikann á að lífverur gætu leynst í vatninu sem nærðust á steinefnum frá jarðhitastrýtum eins og menn hafa fundið neðansjávar á jörðinni.
Líktu eftir aðstæðum við strýtur á hafsbotni Enkeladusar
Vísindamenn undir forystu Ruth-Sophie Taubner frá Háskólanum í Vín gerðu nýlega tilraunir með þrjár tegundir fornbaktería sem mynda metan, að því er segir í frétt Space.com. Fornbakteríur eru frumstæðar örverur án kjarna eða annarrar innri byggingar. Talið er að rekja megi ættir bakteríanna allt aftur til fyrstu örveranna á jörðinni.
Líktu vísindamennirnir eftir aðstæðum við jarðhitastrýtur á hafsbotni Enkeladusar og komust að því að ein tegund bakteríanna gæti mögulega þrifist þar. Bakterían M. Okinawensis óx og dafnaði og myndaði metan í tilraununum. Cassini-geimfarið greindi metan í strókunum sem stíga upp frá yfirborði Enkeladusar.

„Þannig að eitthvað af metaninu sem greindist á Enkeladusi gæti í kenningunni átt sér líffræðilegan uppruna,“ segir Simon Rittmann, einn höfunda rannsóknarinnar frá Vínarháskóla.
Ekki endilega frá lífrænum uppsprettum
Metan getur hins vegar einnig orðið til við efnahvörf bergs og vatns og vísindamennirnir fullyrða ekkert um að metanið á Enkeladusi komi frá lífverum. Niðurstöðurnar eru hins vegar enn ein rannsóknin sem gefur mönnum von um að líf gæti mögulega þrifist á hnettinum.
Enkeladus er ekki eini hnötturinn í sólkerfinu sem talinn er geyma neðanjarðarhaf fljótandi vatns. Evrópa, eitt Galíleotungla Júpíters, hefur lengi vakið forvitni vísindamanna af þessum ástæðum. Þá kom Voyager 2-geimfarið auga á svipaða stróka frá Trítoni, tungli Neptúnusar, og sést hafa á Enkeladusi. Það hefur gefið vísindamönnum tilefni til að ætla að neðanjarðarhaf gæti einnig verið að finna þar.