Körfubolti

„Lógó“ NBA-deildarinnar ekki lengur einn af þeim tuttugu stigahæstu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carmelo Anthony.
Carmelo Anthony. Vísir/Getty
Carmelo Anthony henti í nótt Jerry West út af listanum yfir tuttugu stigahæstu leikmönnum NBA-deildarinnar frá upphafi.

Carmelo Anthony skoraði þá 23 stig fyrir Oklahoma City Thunder í tapleik á móti Houston Rockets. Carmelo Anthony er þar með kominn með 25210 stig á NBA-ferlinum eða átján stigum meira en Jerry West (25,192). Það kemur Melo upp í 20. sætið.

Carmelo Anthony kom inn í deildina árið 2003 og hefur skorað stigin sín fyrir Denver Nuggets, New York Knicks og síðan Oklahoma City Thunder á þessu tímabili. Anthony hefur skorað 24,3 stig að meðaltali í 1037 leikjum.







Jerry West lék allan sinn fjórtán ára feril í NBA-deildinni með liði Los Angeles Lakers en hann lék sinn síðasta leik í deildinni árið 1974. West skoraði 27,0 stig í leik á ferlinum en hann var 20,3 stig í leik á síðasta tímabilinu sínu þegar hann var 36 ára gamall.

West var andlit deildarinnar á sjöunda og áttunda áratugnum enda frábær leikmaður sem var það góður á lokakafla leikjanna að hann fékk gælunafnið „Mr. Clutch“ frá blaðamönnuum.





Þegar lógó NBA-deildarinnar var hannað fór það ekkert á milli mála að mynd af Jerry West með boltann var fyrirmyndin. NBA-deildin hefur aldrei viðurkennt það formlega en Alan Siegel, hönnuður merkisins, hefur staðfest það.

Merkið var hannað árið 1969 en það ár var Jerry West fyrsti og eini leikmaðurinn sem var valinn bestur í lokaúrslitunum þrátt fyrir að vera í tapliðinu.

Þegar West lagði skóna á hilluna árið 1974 þá var hann þriðji stigahæsti leikmaður NBA-deildarinnar frá upphafi á eftir þeim Wilt Chamberlain og Oscar Robertson. Síðan þá hafa átján leikmenn komist upp fyrir hann á listanum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×