Erlent

Bandaríkjaforseti heldur áfram að ljúga um ímyndaða árás í Svíþjóð

Kjartan Kjartansson skrifar
Löfven og Trump ræddu við blaðamenn eftir fund þeirra í Hvíta húsinu. Þar var Trump enn við sama heygarðshornið.
Löfven og Trump ræddu við blaðamenn eftir fund þeirra í Hvíta húsinu. Þar var Trump enn við sama heygarðshornið. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti rifjaði upp ársgamlar rangfærslur sínar um ímyndaða árás í Svíþjóð á blaðamannafundi með Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, í Hvíta húsinu í gær. Trump fullyrti að hann hefði „reynst hafa rétt fyrir sér“ um árásina.

Töluverða athygli vakti þegar Trump vísaði til árásar í Svíþjóð þegar hann tengdi komu flóttamanna þangað við aukna hættu á hryðjuverkum á fjöldafundi með stuðningsmönnum sínum á Flórída í febrúar í fyrra.

„Sjáið bara hvað er að gerast í Þýskalandi. Sjáið hvað gerðist í gærkvöldi í Svíþjóð. Hver hefði trúað þessu? Svíar tóku inn mikinn fjölda, þeir eru nú að glíma við vanda sem enginn gat ímyndað sér. Þið sjáið hvað er að gerast um allan heim,“ sagði Trump.“

Sænsk yfirvöld komu hins vegar af fjöllum og neituðu því að hryðjuverkaárás hefði átt sér stað kvöldið sem Trump vísaði til.

Segir Svía eiga í vandræðum með innflytjendur

Í fyrstu sagðist Trump ekki hafa verið að vísa til neinnar sérstakrar árásar með ummælum sínum heldur til vaxandi glæpatíðni í Svíþjóð sem sagt hafði verið frá á Fox-sjónvarpsstöðinni. Mánuði síðar hafði Trump hins vegar undið kvæði sínu í kross og fullyrti þá að um raunverulegt atvik hafi verið að ræða.

Það atvik átti sér hins vegar stað tveimur dögum eftir að hann lét ummælin um Svíþjóð falla. Um var að ræða óeirðir í hverfi innflytjenda í Stokkhólmi. Trump sagði Time hins vegar að óeirðirnar hefðu átt sér stað daginn eftir ræðuna vafasömu.

Nú rúmu ári síðar virðist Trump enn sannfærður um að hann hafi haft lög að mæla um meintu árásina í Svíþjóð.

„Þið eigið sannarlega við vanda að stríða með innflytjendur. Það hefur valdið vandamálum í Svíþjóð. Ég var einn af þeim fyrstu til að segja það. Ég varð fyrir svolítilli gagnrýni en það var allt í lagi því ég reyndist hafa rétt fyrir mér,“ sagði Trump þegar sænskur blaðamaður spurði hann út í álit hans á Svíþjóð og innflytjendamálum í landinu, að sögn Washington Post.

Trump hefur sjálfur ítrekað útmálað innflytjendur almennt sem hættulega glæpamenn. Þannig kallaði hann Mexíkóa „nauðgara“ í kosningabaráttunni og krafðist þess að múslimum yrði bannað að koma til Bandaríkjanna. Í embætti hefur hann reynt að framfylgja þessum stefnumálum sínum með ferðabanni á múslimalönd, vegg á landamærunum að Mexíkó og tillögum um að stórfækka löglegum innflytjendum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×