
„Íburðarmiklir dagskrárliðir sem voru kostaðir voru Söngvakeppnin/Eurovision, leikna þáttaröðin Fangar og Menningarnótt.“
Meirihluti nefndar um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, sem skilaði skýrslu sinni 25. janúar síðastliðinn, lagði meðal annars til að Ríkisútvarpið fari hið fyrsta af auglýsingamarkaði og að horfið verði frá samkeppnisrekstri ríkisins í auglýsingasölu, bæði í sjónvarpi og útvarpi.
Ársreikningur Ríkisútvarpsins fyrir árið 2017 hefur ekki verið birtur en tekjur stofnunarinnar af sölu auglýsinga og kostunar námu 1.967 milljónum króna árið 2016. Tekjur af kostunum eru ekki sundurliðaðar sérstaklega í ársreikningum Ríkisútvarpsins en árið 2016 voru fjölmargir dagskrárliðir kostaðir, en einnig var kostun á mörgum þáttum aflögð vegna breytinga á auglýsingareglum RÚV. Meðal þeirra voru Gettu betur, Hraðfréttir, Popp- og rokksaga Íslands, Söngvakeppnin í 30 ár, Útsvar og Vikan með Gísla Marteini.
Miðað við tekjur Ríkisútvarpsins af kostun í fyrra samanborið við heildartekjur af samkeppnisrekstri árið 2016 er ljóst að langstærstur hluti tekna stofnunarinnar kemur af hefðbundinni auglýsingasölu.
Samkvæmt viðmiðunarverðskrá Ríkisútvarpsins er kostun á íburðarmiklum dagskrárlið föl fyrir frá 200 þúsund krónum upp í eina milljóna á hvern þátt. 500 þúsund og allt upp í átta milljónir á hvert stórmót og einstaka viðburðir, svo sem innlendir íþróttaviðburðir, eru falir fyrir allt upp undir 5 milljónir króna á hvern viðburð.