Skoðun

Framkvæmdaárið 2019

Sigurður Hannesson skrifar
Það var framsýn þjóð sem byggði upp samfélagið á síðustu öld frá fátækt yfir í velsæld. Þrátt fyrir lítil efni var fjárfest í innviðum landsins enda eru þeir grundvöllur mikillar verðmætasköpunar. Sjávarútvegur reiðir sig á góðar hafnir, ferðaþjónusta á örugga vegi og flugvelli og iðnaður á aðgengi að rafmagni svo dæmi séu tekin. Ástand innviða á Íslandi er nú óásættanlegt. Uppsöfnuð viðhaldsþörf nemur á fjórða hundrað milljarða króna samkvæmt skýrslu sem Samtök iðnaðarins og Félag ráðgjafarverkfræðinga gáfu út sl. haust. Of lítið viðhald undanfarinna ára er farið að bitna á gæðum og öryggi. Ljóst er að bæta þarf verulega í fjárframlög til að vinna á vandanum.

Samhliða ævintýralegum vexti í ferðaþjónustu undanfarin ár hefur umferð um vegi landsins aukist mikið. Fjárframlög hafa ekki fylgt þessari þróun. Sé horft til síðustu 50 ára þá er fjárfesting í þjóðvegakerfinu nú í sögulegu lágmarki sem hlutfall af landsframleiðslu. Framlög til viðhalds og þjónustu eru einnig nokkuð undir hálfrar aldar meðaltali. Eitt hundrað milljarða þarf á næstu fimm árum til að koma þjóðvegakerfinu í ásættanlegt horf. Á þessu ári rétt næst að halda í horfinu og ekki eru fjármunir til að vinna á uppsöfnuðum vanda.

Framkvæmdir minnka milli ára

Undanfarin ár hafa Samtök iðnaðarins haldið útboðsþing þar sem sveitarfélög, orku- og veitufyrirtæki, Vegagerðin og fleiri hafa fjallað um fyrirhugaðar framkvæmdir sínar á árinu. Árið 2016 voru kynntar framkvæmdir upp á um 100 milljarða, 90 milljarða árið 2017 en tæplega 80 milljarða nú í ár. Þetta er ein birtingarmynd pólitísks óstöðugleika. Nú þegar stöðugleika hefur verið komið á er ekki annars að vænta en að forgangsraðað verði í þágu innviðauppbyggingar og þess hljóta að sjást merki í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem birt verður í vor. Það er ekki í boði að bíða lengur.

Það er ekki einungis nauðsynlegt að ráðast í framkvæmdir heldur er núna rétti tíminn fyrir framkvæmdir samhliða því að það hægir á vexti hagkerfisins. Við hljótum því að sjá fram á framkvæmdaárið 2019.

 

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×