Skoðun

Ekkert er nýtt undir sólinni

Auður Guðjónsdóttir skrifar
Á dögunum greindi Hákon Hákonarson læknir frá því í Kastljósi að hann hefði fundið stökkbreytt gen í miðtaugakerfi barna sem haldin eru athyglisbresti og ofvirkni. Það leiddi til leitar hans að því hvort þróað hefði verið lyf sem gæti slegið á einkenni röskunarinnar. Hann komst að því að það hefðu Japanir gert tuttugu árum fyrr í von um að geta notað það við minnisglöpum sem ekki gekk. Tilraunameðferðir á börnunum lofa góðu. Sá sem leitar hann finnur.

Eins og fólk veit gengur erfiðlega að finna lækningu á meinum í miðtaugakerfinu þrátt fyrir að mikið sé rannsakað. Dóttir mín lamaðist fyrir 28 árum og þá var sagt að svo mikið væri að gerast í rannsóknum á taugakerfinu að lækning við mænuskaða hlyti að vera handan við hornið. Satt að segja er meðferð við mænuskaða sú sama í dag og þá. Lamað fólk er þjálfað til sjálfsbjargar í hjólastól og ekkert bólar á lækningu. Ástæðan er framtaksleysi. Hin mikla þekking sem til staðar er á taugavísindasviði er ekki skoðuð í stóra samhenginu og ekki nýtt almennt til að finna þræði sem samræmast eins og Hákon gerði með stórkostlegum árangri.

Árið 2015 kom Ísland inn í stefnuyfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna tilvísun um að stefnt skuli að því að þjóðir heims bæti meðferðir í taugakerfinu. Í framhaldinu leitaði Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi utanríkisráðherra, eftir því við Norrænu ráðherranefndina að hún tæki tilvísunina upp og samþykkti að láta greina og samkeyra norræna gagnabanka á taugavísindasviði og leita að sameiginlegu mynstri í innihaldi þeirra. Markmiðið væri að auka skilning læknavísindanna á hvernig taugakerfið starfar og færa heiminn nær lækningu. Enn sem komið er hefur tillaga Lilju fengið jákvæða umfjöllun og verður vonandi samþykkt og komið í framkvæmd á þessu ári. Ég bið samstarfsráðherra, heilbrigðisráðherra og þingmenn Íslandsdeildar Norðurlandaráðs að beita sér kröftuglega málinu til framdráttar á vettvangi Norðurlandaráðs.



Höfundur er stjórnarformaður Mænuskaðastofnunar Íslands.






Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×