Erlent

Enn eitt draugaskipið rekur á land í Japan

Samúel Karl Ólason skrifar
Starfsmenn Landhelgisgæslu Japan fara um borð í bát sem rak á land í fyrra.
Starfsmenn Landhelgisgæslu Japan fara um borð í bát sem rak á land í fyrra. Vísir/AFP
Lögregla í Japan segir að brak skips með átta líkum um borð hafi rekið á land í síðustu viku. Talið er að báturinn sé frá Norður-Kóreu en um borð fundust myndir af Kim Il Sung og Kim Jong Il. Sæmt veður hefur þó komið í veg fyrir umfangsmikla rannsókn á bátnum sem fannst á miðvikudaginn.



Skipið sem smíðað er úr viði hafði hvolft og talið er að það hafi gerst vegna veðurs.



Landhelgisgæsla Japan tilkynnti fyrr í mánuðinum að alls hefðu 104 skip frá Norður-Kóreu rekið á land í Japan í fyrra. Árið áður höfðu þau verið 66. Umfangsmikill matarskortur í Norður-Kóreu hefur leitt til þess að menn fara á sjó í leit að mat á illa búnum skipum og jafnvel án þess að vita hvað þeir eru að gera.

Japanskur prófessor, sem sérhæfir sig í málefnum Norður-Kóreu sagði í fyrra að aukninguna megi einnig rekja til ársins 2013. Þá hafi Kim Jong Un ákveðið að auka umfang sjávarútvegs í Norður-Kóreu og þá sérstaklega til að auka tekjur hers landsins.



„Þeir eru að nota gamla báta sem mannaðir eru af hernum, af mönnum sem vita ekkert um fiskveiðar. Þetta mun halda áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×