Erlent

Hvíta húsið reynir að þagga niður í fyrrverandi ráðgjafa Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Steve Bannon var aðalráðgjafi Trump en yfirgaf Hvíta húsið í ágúst. Hann hefur síðan einbeitt sér að því að reyna að færa Repúblikanaflokkinn út á þjóðernispopúlískar brautir.
Steve Bannon var aðalráðgjafi Trump en yfirgaf Hvíta húsið í ágúst. Hann hefur síðan einbeitt sér að því að reyna að færa Repúblikanaflokkinn út á þjóðernispopúlískar brautir. Vísir/AFP
Lögmaður Hvíta hússins hefur sent Steve Bannon, fyrrverandi aðalráðgjafa Donalds Trump Bandaríkjaforseta, bréf þar sem honum er hótað málsókn fyrir að brjóta ákvæði um þagmælsku sem hann skrifaði undir þegar hann yfirgaf Hvíta húsið. Tilefnið er ummæli sem höfð eru eftir Bannon í nýrri bók.

Bók Michaels Wolff um vendingar í innsta hring Trump frá kjördegi árið 2016 hefur valdið miklu fjaðrafoki í Washington-borg. Hún byggir á viðtölum við Trump, nánustu bandamenn hans og fjölda viðmælenda þeirra.

Ekki síst eru það ummæli sem höfð eru eftir Bannon um að Donald Trump yngri, elsti sonur forsetans, hafi gerst sekur um landráð þegar hann fundaði með rússneskum lögfræðingi sem hafði lofað skaðlegum upplýsingum um Hillary Clinton í júní 2016 sem hafa farið fyrir brjóstið á Trump.

Forsetinn brást ævareiður við ummælunum og sakaði Bannon um að hafa „misst vitið“ þegar hann yfirgaf Hvíta húsið. Lögmaður Hvíta hússins sakar Bannon nú um að hafa brotið gegn samningi sínum með því að ræða Trump og fjölskyldu hans við Wolff.

Þá sakar hann Bannon um að deila trúnaðarupplýsingum og um ærumeiðingar í garð Trump, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Wolff fullyrðir meðal annars í bók sinni að Trump hafi ekki ætlað sér að verða forseti heldur nýta framboðið til að koma sér á framfæri og efnast á því. Það hafi verið honum áfall í fyrstu að vera kjörinn. Þá er forsetanum lýst sem aðeins „hálflæsum“ þar sem hann sé ekki fær um að lesa eða skilja kynningar ráðgjafa sinna á mikilvægum málefnum.


Tengdar fréttir

Bannon segir umdeildan fund Trump yngri vera landráð

"Þremur æðstu mönnum framboðsins fannst það góð hugmynd að funda með fulltrúum erlendrar ríkisstjórnar í Trump-turni, í fundarherberginu á 25 hæð og án þess að vera með lögmenn viðstadda.“

Trump segir Bannon hafa misst vitið

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, segir að fyrrverandi ráðgjafi sinn, Steve Bannon, hafi misst vitið þegar hann missti vinnuna í Hvíta húsinu.

Tíu bombur úr nýrri bók um Trump

Ný bók blaðamannsins Michael Wolff um það sem gengur á innan veggja Hvíta hússins inniheldur fjöldann allan af afjhúpunum um forseta Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×