Erlent

Ráðgjafa Trump var fylgt út af CNN

Kjartan Kjartansson skrifar
Stephen Miller hafði ekki sagt sitt síðasta orð eftir að Tapper batt enda á viðtal við hann á CNN.
Stephen Miller hafði ekki sagt sitt síðasta orð eftir að Tapper batt enda á viðtal við hann á CNN. Vísir/AFP
Öryggisverðir fylgdu Stephen Miller, ráðgjafa Donalds Trump Bandaríkjaforseta, út úr upptökuveri eftir viðtal á CNN í gær. Miller og stjórnandi þáttarins höfðu tekist hart á áður en stjórnandinn batt skyndilega enda á viðtalið.

Miller var gestur Jake Tapper í þættinum „State of the Union“ á CNN í gær. Þeim Tapper varð fljótt heitt í hamsi þegar talið barst að nýrri og umdeildri bók um Trump forseta. Í stað þess að svara reyndi Miller ítrekað að beina viðtalinu í átt að gagnrýni á CNN.

Kallaði Miller forsetann meðal annars „stjórnmálasnilling“. Trump hafði þá brugðist við umfjöllun um geðheilsu og vitsmuni með því að kalla sjálfan sig „mjög stöðugan snilling“ á Twitter. Tapper sakaði Miller um að reyna aðeins að þóknast forsetanum með svörum sínum.

Á endanum var Tapper nóg boðið af svörum Miller og batt enda á á viðtalið með orðunum:  „Ég held að ég hafi þegar sóað tíma áhorfenda minna nógu mikið. Þakka þér fyrir, Stephen.“ Á meðan hélt Miller áfram að tala ofan í Tapper.

Business Insider hefur eftir heimildarmönnum að í kjölfarið hafi Miller ítrekað verið beðinn um að yfirgefa upptökuverið en hann hafi látið þær óskir sem vind um eyru þjóta. Á endanum hafi öryggisverðir verið kvaddir til sem vísuðu ráðgjafanum á dyr.

Miller vakti einnig töluverða athygli á fyrstu vikum forsetatíðar Trump þegar hann mætti í sjónvarpsviðtöl til að verja múslimabann forsetans. Þar deildi hann hart á dómstóla sem höfðu þá fellt bannið úr gildi. Fullyrti hann að andstæðingar Trump, fjölmiðlar og heimurinn allur myndu sjá Trump hefði verulegt vald sem yrði ekki dregið í efa.

Trump hefur ítrekað ráðist á CNN og sakað stöðina um að flytja „falsfréttir“ af sér þegar honum mislíkar umfjöllun um sig.


Tengdar fréttir

Tíu bombur úr nýrri bók um Trump

Ný bók blaðamannsins Michael Wolff um það sem gengur á innan veggja Hvíta hússins inniheldur fjöldann allan af afjhúpunum um forseta Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×