Konan heitir Monalisa Perez en fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC greinir frá því að hún hafi játað við yfirheyrslu hjá lögreglu að hafa skotið úr skammbyssu í bók sem kærasti hennar, hinn 22 ára gamli Pedro Ruiz III, hélt á í um þrjátíu sentímetra fjarlægð frá byssunni.
Atvikið átti sér stað sér 26. júní síðastliðinn en Perez sagði við yfirheyrslu að þau hefðu átt von á því að byssukúlan myndi nema staðar í bókinni. Sú varð ekki raunin, kúlan fór í gegnum bókina og hafnaði í bringu Ruiz sem lést skömmu síðar.
Hefur Perez játað að hafa gerst sek um manndráp.
Það gerir það að verkum að hún mun hljóta vægari refsingu sem hljóðar upp á sex mánaða fangelsisvist og tíu ár á skilorði.
Henni verður einnig bannað að eiga skotvopn.
Perez og Ruiz höfðu stundað það að setja myndbönd á YouTube af hrekkjum sínum í von um frægð og frama.
Þau notuðust við GoPro-myndavél þegar þau ætluðu að mynda hrekkinn örlagaríka. Bókin sem Ruiz hélt á var fjögurra sentímetra þykk alfræðiorðabók í harðkápu.
Þriggja ára gamalt barn parsins og þrjátíu aðrir fylgdust svo með þegar Perez skaut úr Desert Eagle-skammbyssunni á bókina með fyrrgreindum afleiðingum. Var Perez barnshafandi þegar þetta átti sér stað.
Ruiz var úrskurðaður látinn á heimili þeirra í borginni Halstad í Minnesota-ríki Bandaríkjanna.
Me and Pedro are probably going to shoot one of the most dangerous videos ever HIS idea not MINE
— Monalisa Perez (@MonalisaPerez5) June 26, 2017