Innlent

Þjófar létu til skarar skríða í skjóli jólatónleika

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Tilkynnt var um þjófnað eftir tónleikana sem haldnir voru í Ísafjarðarkirkju í gærkvöldi.
Tilkynnt var um þjófnað eftir tónleikana sem haldnir voru í Ísafjarðarkirkju í gærkvöldi. Vísir/Pjetur
Tveir menn voru handteknir í gærkvöldi í miðbæ Ísafjarðar grunaðir um að hafa látið greipar sópa í anddyri Ísafjarðarkirkju á sama tíma og jólatónleikar Heru Bjarkar, Jógvans Hansens Halldórs Smárasonar voru haldnir í kirkjunni.

Tilkynnt var um þjófnað eftir tónleikana þegar tónleikagestir urðu þess varir að verðmætum hafði verið stolið úr yfirhöfnum í anddyrinu sem geymdar voru þar á meðan á tónleikunum stóð. Um var að ræða lykla, greiðslukort, ökuskírteini og peningaseðla svo dæmi sé tekið að því kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum.

Mennirnir voru handteknir skömmu eftir að tilkynning um þjófnaðinn barst lögreglu og eru þeir í haldi á meðan rannsókn fer fram. Í tilkynningu lögreglu segir að allmargir tónleikagestir hafi orðið fyrir þjófnaðinum. Þó sé möguleiki á að fleiri tónleikagestir hafi tapað verðmætum og eru þeir sem ekki gáfu sig fram við lögreglu í gær, og telja sig hafa orðið fyrir barðinu á þjófunum, hvattir til að gefa sig fram við lögreglu.

Þá þiggur lögreglan upplýsingar frá þeim sem kunna að geta gefið upplýsingar um verknaðinn, séð til grunsamlegra mannaferða eða annað sem gæti komið að gagni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×