Allur hluti 365 færist yfir til Vodafone að frátöldu Fréttablaðinu og Glamour. Stöð 2, Bylgjan, X-ið, FM957, Vísir auk tilheyrandi auglýsinga- og áskriftardeilda færast yfir til Vodafone.
Starf ritstjóra fréttahlutans sem fer undir hatt Vodafone, þ.e. Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar, verður auglýst á næstunni. Mun Capacent sjá um ferlið. Þangað til verður Kristín Þorsteinsdóttir áfram aðalritstjóri allra miðla fram að ráðningu nýs ritstjóra. Eftir það verður hún útgefandi og ritstjóri Fréttablaðsins.
Björn Víglundsson verður framkvæmdastjóri nýs sviðs hjá Vodafone sem heitir Miðlar. Hann ræddi sömuleiðis við starfsfólk í höfuðstöðvum 365 í morgun. Fundur með starfsmönnum Vodafone fór fram í hádeginu.
Starfsmenn hjá Vodafone eftir kaupin á stórum hluta 365 verður samanlagt um 550 manns eftir því sem fram kom í máli Stefáns í morgun. Starfsfólk mun ekki finna fyrir breytingum fyrr en á nýju ári. Stefnt er að því að öll starfsemi Vodafone verði á Suðurlandsbraut 8 innan tíðar.
Eins og fram kemur í fréttinni er Vísir frá og með deginum í dag í eigu Vodafone.