Netflix hefur náð samningum um að hefja framleiðslu á sjöttu og síðustu þáttaröð House of Cards snemma á næsta ári. Eins og áður hefur verið tilkynnt verður Kevin Spacey ekki áfram hluti af þáttunum. Þættirnir verða átta talsins en Robin Wright verður þar í aðalhlutverki sem Claire Underwood.
Að minnsta kosti 24 karlmenn hafa stigið fram og sakað Kevin Spacey um kynferðislega áreitni eða kynferðisofbeldi. Framleiðslu Netflix-seríunnar vinsælu House of Cards, þar sem Spacey fór með aðalhlutverkið, var hætt tímabundið í kjölfar ásakananna.
House of Cards-þættirnir hafa verið sýndir á streymisveitu Netflix og eru 370 leikarar og starfsmenn sem vinna við gerð þeirra. Starfsfólkið hefur verið á launum meðan á þessu hléi stendur og verða það áfram þar til framleiðsla hefst á ný. Hugsanlega hefjast tökurnar í janúar á næsta ári.