Körfubolti

Steve Kerr og Steph Curry: Gregg Popovich yrði frábær forseti Bandaríkjanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steve Kerr og Gregg Popovich á góðri stundu.
Steve Kerr og Gregg Popovich á góðri stundu. Vísir/Getty
Steve Kerr, þjálfari Golden State Warriors, talar afar vel um annan þjálfara í NBA-deildinni en þá erum við að sjálfsögðu að tala um læriföður hans Gregg Popovich.

Kerr vann tvo af fimm NBA-titlum sínum sem leikmaður undir stjórn Gregg Popovich. Popovich hefur þjálfað lið San Antonio Spurs frá árinu 1996 og er búin að gera Spurs fimm sinnum að NBA-meisturum.

Í viðtali við ESPN þá fór Kerr lengra en bara að hrósa körfuboltaþjálfaranum Gregg Popovich.

„Ég myndi kjósa Pop. Hann yrði frábær forseti. Ég er að tala í fullri alvöru. Ég myndi kjósa hann,“ sagði Steve Kerr sem sjálfur hefur gert Golden State Warriors tvisvar sinnum að NBA-meisturum.

Gregg Popovich er einn af þeim sem hefur farið mikinn í gagnrýni sína á núverandi Bandaríkjaforseta Donald Trump.

„Heiðarleiki og heilindi. Það eru tvö lykilatriði fyrir hvaða persónu sem ætlar sér að verða forseti. Hann hefur þetta tvennt,“ sagði Kerr.

Stephen Curry, leikmaður Golden State Warriors, tekur undir með þjálfara sínum.„Hann er frábær fyrir NBA-deildina og yrði jafnvel enn betri fyrir þjóðina,“ sagði Stephen Curry.

Steve Kerr segir að Popovich sé einn af hans helstu lærimeisturum en hann spilaði fyrir Pop frá 1998 til 2001 og svo aftur frá 2002-2003 sem var hans síðasta tímabil á ferlinum.

„Við höfum hér hjá Golden State tekið upp nokkra hluti frá Pop. Meira en allt annað þá met hann mikils af því að hann er frábær vinur og maður sem ég hef aðdáun á,“ sagði Kerr.

Þeir Steve Kerr og Gregg Popovich mætast einmitt með lið sín í NBA-deildinni í nótt. Leikurinn fer fram í San Antonio.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×