Erlent

Vinsældir Trump ná nýjum lægðum

Kjartan Kjartansson skrifar
Hvert hneykslismálið og sjálfsskaparvítið hefur rekið annað í stuttri forsetatíð Trump.
Hvert hneykslismálið og sjálfsskaparvítið hefur rekið annað í stuttri forsetatíð Trump. Vísir/AFP
Hlutfall þeirra sem telja að Donald Trump standi sig vel í embætti forseta Bandaríkjanna hefur aldrei mælst lægra en nú. Samkvæmt nýrri könnun NBC og Wall Street Journal hafa aðeins 38% Bandaríkjamanna velþóknun á störfum forsetans.

Vinsældir Trump minnka um fimm prósentustig frá því í síðustu könnun NBC/WSJ í september. Áður fóru vinsældirnar lægst í 39% í þessari könnun í maí. Alls segjast nú 58% svarenda óánægð með frammistöðu forsetans.

Í frétt NBC kemur fram að ánægjan með forsetann dragist saman hjá óháðum kjósendum, hvítum kjósendum og hvítu fólki án háskólagráðu.  Þróunin í seinni tveimur hópunum gæti verið til marks um að byrjað sé að fjara undan grunnfylgi forsetans.

Aldrei áður hafa vinsældir Bandaríkjaforseta mælst minni á þessum tímapunkti í forsetatíð hans. Þannig naut George W. Bush vinsælda 88% svarenda í könnun NBC/WSJ þegar jafnlangt var liðið af forsetatíð hans, Barack Obama 51% og Bill Clinton 47%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×