Körfubolti

Slagsmálin á æfingu Chicago Bulls skiluðu Finnanum Markkanen sæti í byrjunarliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lauri Markkanen fagnar sigri á móti Íslandi.
Lauri Markkanen fagnar sigri á móti Íslandi. Vísir/EPA
Einn maður græddi byrjunarliðssæti á látunum á æfingu NBA körfuboltaliðsins Chicago Bulls þar sem liðsfélögunum Bobby Portis og Nikola Mirotic lenti illa saman.

Finninn Lauri Markkanen, sem fór á kostum á móti íslenska landsliðinu á Eurobasket, verður væntanlega í byrjunarliði Bulls liðsins í fyrsta NBA-leiknum sínum í kvöld. Markkanen lék í háskólaboltanum í fyrra en var valinn sjöundi í nýliðavalinu í sumar.

Minnesota Timberwolves valdi Lauri Markkanen en hann fór síðan yfir til Chicago Bulls í Jimmy Butler skiptunum.

Það átti þó ekki að vera svo að Markkanen byrjaði sinn fyrsta NBA-leik enda Nikola Mirotic og Bobby Portis bæði reyndari og undan honum í goggunarröðinni. Þeir Bobby Portis og Nikola Mirotic verða þó ekki í Chicago Bulls búningi á móti Toronto Raptors í kvöld. ESPN segir frá.

Bobby Portis sló Nikola Mirotic niður eftir mikið ósætti á milli þeirra á æfingu og sendi með því Mirotic á sjúkrahús. Mirotic brotnaði í andlitinu og hlaut auk þess heilahristing. Hann verður því frá keppni í fjórar til sex vikur.

Chicago Bulls tók síðan þá ákvörðun í samráði við yfirmenn NBA-deildarinnar að setja Bobby Portis í átta leikja bann vegna hegðun sinnar. Þeir félagar verða því hvorugur með liði Chicago Bulls næstu vikurnar.

John Paxson, varaforseti Chicago Bulls, tók það þó fram að Bobby Portis væri ekki slæmur maður heldur mikill keppnismaður sem gerði mistök. Það breytti því ekki að menn verði að taka út sínar refsingar.

Lauri Markkanen var frábær á Eurobasket þar sem hann skoraði 19,5 stig að meðaltali og hitti úr 53 prósent skota sinna og 89,7 prósent vítanna. Í leiknum á móti Íslandi skoraði hann 23 stig á 24 mínútum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×