
Afgreiða þurfti frumvarpið með afbrigðum frá þingskaparlögum, Lögin gera ráð fyrir að ekki megi hefja umræðu um frumvörp fyrr en að tveimur nóttum liðnum frá framlagningu þeirra. Frumvarpið var lagt fram skömmu fyrir upphaf þingfundar í gær. Það var samþykkt skömmu eftir miðnætti, eins og Vísir greindi frá.
Sjá einnig: Ákvæði um uppreist æru fellt úr lögum
Með lagabreytingunni var eingöngu lögfestur hluti þeirrar endurskoðunar sem dómsmálaráðherra hefur boðað að undanförnu. Samkvæmt nýsamþykktum lögum geta stjórnvöld ekki lengur veitt uppreist æru. Í nýsamþykktum lögum er hins vegar ekki fjallað um með hvaða hætti sakaferill skuli leiða til missis borgaralegra réttinda og hvaða skilyrði rétt sé að setja fyrir því að einstaklingar öðlist umrædd borgararéttindi að nýju.
Í greinargerð frumvarpsins segir að óhjákvæmilegt verði að „vinnu við heildarendurskoðun verði fram haldið og að Alþingi samþykki innan tíðar ný lög þar sem afstaða er tekin til þeirra álitaefna sem hér um ræðir“.

Arnar segir almennt vissulega til bóta að réttarfarsnefnd og sérfræðingar í refsirétti komi að gerð slíkra frumvarpa og að ráðuneytinu hefði verið mikill styrkur í því.
„Maður getur þó ekki með góðu móti litið fram hjá því að hér eru menn að vinna í kapp við tímann og telja sig vafalaust vera að gera eitthvert gagn með þessu,“ segir Arnar Þór.
„Á hinn bóginn er augljóslega mikilvægt að mál séu skoðuð út frá öllum hliðum við undirbúning lagasetningar, en ekki aðeins hlið þeirra sem hafa hæst. Þótt sú skoðun njóti ef til vill ekki sérstakra vinsælda nú leyfi ég mér að minna á mikilvægi þess að við flýtum okkur hægt í þessum efnum og forðumst eftir megni að grafa undan réttarvernd þeirra sem verst standa. Ef grannt er skoðað nær sú skuldbinding réttarríkisins ekki aðeins til brotaþola, heldur einnig til þeirra sem hafa brotið af sér, tekið út sinn dóm og vilja verða gildir samfélagsþegnar að nýju,“ bætir hann við.