Ferjan, sem Vegagerðin hefur samið um leigu á á meðan Herjólfur fer í slipp, hefur ekki leyfi til að sigla til Þorlákshafnar, eins og upphaflega var talið.
Í ljós er komið að skipið uppfyllir ekki nýlegar norskar reglur og því var siglingaleyfi til Þorlákshafnar afturkallað.
Ferjan, sem heitir Röst og er gerð út í Norður-Noregi er heldur minni en Herjólfur og ristir grynnra en Herjólfur, þannig að hún ætti að komast til Landeyjahafnar í heldur verra veðri en Herjólfur.
Vegagerðin skrifaði undir leigusamning við fyrirtækið Torghatten Nord AS síðastliðinn föstudag. Ferjan Röst var smíðuð árið 1991 og er 66,2 metrar að lengd og 13,4 á breidd. Herjólfur er hins vegar 70,7 metrar á lengd og 16 að breidd.
Afleysingaskip fyrir Herjólf má ekki sigla til Þorlákshafnar
Atli Ísleifsson skrifar
