Bojan Bogdanovic, leikmaður Indiana Pacers, leiddi Króata til sigurs á Svartfellingum, 72-76, í C-riðli. Króatar eru með sex stig á toppi riðilsins en þeir hafa unnið alla þrjá leiki sína.
Bogdanovic skoraði 23 stig og tók sex fráköst. Hann er meðal stigahæstu manna mótsins með 22,3 stig að meðaltali í leik. Dario Saric, leikmaður Philadelphia 76ers, skoraði 14 stig fyrir Króatíu sem leiddi allan leikinn og komst m.a. í 0-10 í upphafi leiks.
Tyrese Rice var stigahæstur hjá Svartfjallalandi með 22 stig. Liðið er með fjögur stig í 3. sæti C-riðils.
Adam Hanga átti stórleik þegar Ungverjar báru sigurorð af Tékkum, 85-73, í C-riðli. Þetta var fyrsti sigur Ungverjalands á EM.
Hanga skoraði 31 stig, tók átta fráköst og gaf átta stoðsendingar í ungverska liðinu. Hann hitti úr 10 af 16 skotum sínum.
Tomas Satoransky og Lukas Palyza skoruðu 18 stig hvor fyrir Tékkland sem er með fjögur stig í 5. sæti C-riðils.

Aleksei Shved fór fyrir Rússum með 20 stigum, sex fráköstum og sex stoðsendingum. Timofey Mozgov skoraði 12 stig. Rússland er með sex stig á toppi riðilsins eftir þrjá sigra í jafn mörgum leikjum.
Maxime De Zeeuw skoraði 15 stig fyrir Belga sem eru í 3. sæti riðilsins með fjögur stig eftir einn sigur og tvö töp.
Kristpas Porzingis, leikmaður New York Knicks, sýndi hvers hann er megnugur þegar Lettland vann fimm stiga sigur á Bretlandi, 97-92, í D-riðli.
Porzingis skoraði 28 stig og tók átta fráköst fyrir Letta sem eru í 2. sæti riðilsins með fimm stig. Porzingis hitti úr 11 af 17 skotum sínum í leiknum.
Gabe Olaseni skoraði 23 stig og tók 10 fráköst fyrir breska liðið sem er enn án stiga í D-riðli.
Í kvöld mætast svo Spánverjar og Rúmenar í C-riðli og Serbar og Tyrkir í D-riðli.