Kaupþing vildi ekki svara fyrirspurn Markaðarins hvað félagið hefði keypt kröfuna á né heldur hver tilgangurinn með kaupunum hafi verið. Félagið Lindarhvoll, sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið, var sett á stofn í apríl 2016 og heldur utan um eignir sem voru framseldar til ríkissjóðs í tengslum við stöðugleikaframlög fjármálafyrirtækja í slitameðferð.
Samkvæmt heimildum Markaðarins keypti Kaupþing kröfuna meðal annars í því skyni að styrkja stöðu sína í mögulegum samningaviðræðum við Stanford en krafan sem um ræðir beinist að honum persónulega. Kaupin komu í kjölfar þess að Paul Copley, forstjóri Kaupþings, gerði Stanford óformlegt tilboð um að ljúka öllum ágreiningsmálum milli hans og Kaupþings með greiðslu til Stanfords.
Í skriflegu svari til Markaðarins segir Kaupþing að það sé ekki rétt, eins og heimildir blaðsins herma, að það tilboð hafi hljóðað upp á um 60 milljónir punda, jafnvirði 8 milljarða króna, sem Stanford hafi hafnað. „Viðræður aðila njóta trúnaðar en Kaupþing getur staðfest að félagið hefur ekki gert Kevin Stanford tilboð um greiðslu umræddrar fjárhæðar.“
Þá segir einnig í svari Kaupþings að „málaferli hafa staðið yfir milli Kaupþings og Kevin Stanford í Lúxemborg frá árinu 2011. Þær sáttaumleitanir sem hafa átt sér stað hafa engan árangur borið og eru frekari sáttaumleitanir hvorki yfirstandandi né fyrirhugaðar. […] Eins og sakir standa á Kaupþing ekki von á að ná sáttum við Kevin Stanford og mun neyta allra lagalegra úrræða til að sækja rétt sinn fyrir dómstólum í viðeigandi lögsögum.“
Í árslok 2015 gerði Stanford kröfu um að Kaupþing myndi greiða honum 545 milljónir punda, jafnvirði 74 milljarða króna. Greint var frá kröfunni á heimasíðu Kaupþings og sagt að hún kæmi til vegna atburða sem hafi átt sér stað í lok árs 2008 og ársbyrjun 2009. Í mars 2009 var tilkynnt um að Kaupþing banki í Lúxemborg hefði tekið yfir 25,4 prósenta hlut Stanford í töskufyrirtækinu Bulberry vegna skulda hans við Kaupþing.

Stanford hefur einnig átt í deilum við slitabú gamla Landsbankans (LBI). Slitastjórn LBI hafnaði á sínum tíma 11,6 milljarða króna gagnkröfum Stanfords sem fjárfestirinn vildi að gengi upp í skuld hans við kröfuhafa slitabúsins. Málið er komið til kasta íslenskra dómstóla og verður fyrirtaka í málinu fyrir héraðsdómi Reykjavíkur um miðjan næsta mánuð.
Stanford var um tíma einn af stærstu eigendum Mosaic Fashions. Þá var hann stór hluthafi í FL Group, í gegnum Materia Invest ehf., og átti einnig hlut í Baugi.
Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.