Körfubolti

Skiptu á þeim fyrsta og síðasta úr nýliðavalinu 2011

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kyrie Irving og Isiah Thomas í leik Cleveland og Boston á síðasta tímabili.
Kyrie Irving og Isiah Thomas í leik Cleveland og Boston á síðasta tímabili. vísir/getty
Sem kunnugt er skipti Cleveland Cavaliers stórstjörnunni Kyrie Irving til Boston Celtics í nótt.



Í staðinn fékk Cleveland Isiah Thomas, Jae Crowder, Ante Zizic og fyrsta valrétt í nýliðavalinu á næsta ári.

Irving og Thomas eru meðal bestu sóknarmanna NBA-deildarinnar. Thomas var þriðji stigahæsti leikmaður deildarinnar á síðasta tímabili með 28,9 stig að meðaltali í leik á meðan Irving var í 11. sæti á stigalistanum með 25,2 stig að meðaltali í leik.

Irving og Thomas komu báðir inn í NBA árið 2011 og eru því að hefja sitt sjöunda tímabil í deildinni. Leið þeirra inn í NBA var þó nokkuð ólík.

Eftir eitt tímabil með Duke háskólanum var hinn 19 ára gamli Irving valinn númer eitt í nýliðavalinu 2011 af Cleveland sem var þá enn að jafna sig eftir brotthvarf LeBrons James til Miami Heat.

Thomas var hins vegar valinn númer 60, eða síðastur, í nýliðavalinu 2011. Það var Sacramento Kings sem veðjaði á þennan smávaxna leikstjórnanda sem var orðinn 22 ára þegar hann kom inn í NBA.

Sex árum eftir að þeir voru valdir í nýliðavalinu í NBA eru Irving og Thomas leikendur í einum stærstu félagaskiptum deildarinnar á síðustu árum. Þess má svo geta að Cleveland og Boston mætast á fyrsta degi nýs tímabils í NBA 17. október næstkomandi.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×