Víetnömsk kona búsett hér á landi hefur stefnt eiginmanni sínum, búsettum í Víetnam. Vill hún að henni verði veittur lögskilnaður en hjónin hafa ekki hist frá því í febrúar 2012. Afar illa hefur gengið að ná til mannsins í Víetnam.
Í stefnunni, sem birt er í Lögbirtingablaðinu, segir að konan hafi verið búsett hér á landi frá árinu 2001. Í einni af ferðum hennar til Víetnam kynntist hún samlanda hennar og giftu þau sig árið 2010. Stefndu þau að því búa hér á landi en eiginmaður hennar fékk ekki dvalarleyfi.
Kynntist íslenskum manni
Konan vildi áfram búa hér á landi og slitnaði upp úr sambandi þeirra þar sem þau gátu ekki átt sameiginlegt heimili á Íslandi. Framan af hjónabandi hittust þau þegar konan heimsótti heimaland, og þá aðeins um nokkurra vikna skeið.
Hafa þau ekki hist frá því á árinu 2012 og kynntist konan íslenskum manni eftir að slitnaði upp úr samskiptum hennar við eiginmanninn. Eiga hún og íslenski maðurinn saman barn.
Krafa konunnar um lögskilnað er byggð á 37. grein hjúskaparlaga þar sem segir að hafi hjón slitið samvistum vegna ósamlyndis geti hvort þeirra krafist lögskilnaðar þegar samvistaslit hafi staðið í tvö ár hið skemmsta.
Fimm tilraunir í Víetnam
Í stefnunni segir að konan hafi undanfarin ár gert ítrekaðar tilraunir til þess að birta eiginmanni hennar stefnu í heimalandi þeirra, alls fimm sinnum. Í stefnunni segir að það hafi sýnt sig að stjórnvöld í Víetnam „virðast ófær um að sinna skyldum sínum til birtingar á stefnu í máli þessu.“
Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í næsta mánuði og er eiginmanni konunnar stefnt til að mæta í dómsal héraðsdóms, ella megi hann gera ráð fyrir því að útivistardómur gangi í málinu, það er að dæmt verði í málinu að honum fjarstöddum.
