Erlent

Trump skrifar undir „gallaðar“ refsiaðgerðir gegn Rússum

Kjartan Kjartansson skrifar
Bandaríkjaforseti hefur staðfest lög frá Bandaríkjaþingi um hertar refsiaðgerðir gegn Rússum. Það gerði forsetinn þrátt fyrir að lýsa því yfir að lögin séu „gölluð“.

Yfirgnæfandi meirihluti bandarískra þingmanna samþykktu frumvarpið um að herða refsiaðgerðirnar vegna tilrauna Rússa til að hafa áhrif á forsetakosningarnar í fyrra og innlimun Krímskaga fyrir þremur árum.

Eitt ákvæði frumvarpsins er að Trump getur ekki aflétt aðgerðunum án samþykkis Bandaríkjaþings.

Donald Trump, forseti, skrifaði undir lögin í dag en sakaði þingið engu að síður um að fara út fyrir valdsvið sitt. Undirskriftinni fylgdi yfirlýsinginn þar sem hann kallaði lögin „afar gölluð“, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

„Sem forseti get ég náð miklu betri samningum við erlend ríki en Bandaríkjaþing,“ sagði forsetinn.

Rússar og ESB ósátt

Frumvarpið sem varð að lögum leggur einnig frekari refsiaðgerðir á Norður-Kóreu og Íran.

Rússar hafa þegar svarað refsiaðgerðunum í sömu mynt og rekið 755 sendifulltrúa Bandaríkjanna frá landinu.

Fulltrúar Evrópusambandsins hafa einnig lýst óánægju með aðgerðirnar enda eru ýmis aðildarríki þess, þar á meðal Þýskaland, háð jarðgasi frá Rússlandi. Óttast þeir að refsiaðgerðir Bandaríkjamanna komi niður á þeim viðskiptum.


Tengdar fréttir

Rússar svara refsiagerðum Bandaríkjamanna í sömu mynt

Utanríkisráðuneyti Rússlands skipaði bandarískum stjórnvöldum að fækka í starfsliði í sendiráðum og tilkynnti um að hald yrði lagt á fasteignir sendiskrifstofanna. Aðgerðirnar eru svar gegn refsiaðgerðum Bandaríkjamanna.

Rússar óánægðir með hertar refsiaðgerðir

Aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands gefur í skyn að rússnesk stjórnvöld svari í sömu mynt eftir að lægri deild Bandaríkjaþings samþykkti hertar refsiaðgerðir gegn þeim í gær. Óvíst er hvort að Donald Trump forseti beiti neitunarvaldi sínu gegn frumvarpinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×