Íslenski boltinn

KR fær danskan framherja

Kennie Chopart fær fjórða danska samherjann.
Kennie Chopart fær fjórða danska samherjann. vísir/eyþór
KR er búið að bæta við sig dönskum sóknarmanni að nafni André Bjerregaard sem kemur til liðsins frá AC Horsens í Danmörku. Danska félagið tilkynnir á vef sínum að það er búið að selja framherjann til Íslands.

Bjerregaard hefur leikið með Horsens undanfarin sjö ár en á síðustu leiktíð spilaði hann 36 leiki, skoraði fimm mörk og átti átta stoðsendingar er liðið hélt sér uppi í gegnum fallumspil.

Hann er 25 ára gamall og hefur verið samherji Kjartans Henry Finnbogasonar hjá Horsens síðan íslenski landsliðsmaðurinn gekk í raðir danska félagið.

„Við höfum verið mjög ánægðir með að hafa André í okkar röðum en erum ánægðir einnig að hann fái tækifæri til að hefja nýjan kafla á Íslandi,“ segir Bo Henriksen, þjálfari Horsens, sem spilaði hér á landi með Fram, Val og ÍBV.

KR er í áttunda sæti Pepsi-deildarinnar með ellefu stig en á tvo leiki eftir í fyrri umferðinni. Liðið er aðeins búið að skora þrettán mörk en vonandi fyrir það getur André hjálpað til við það.

KR ferðast til Ísrael í dag þar sem það mætir Maccabi Tel Aviv í Evrópudeildinni á fimmtudaginn en næst mætir það Stjörnunni á útivelli í Pepsi-deildinni á sunnudaginn þar sem André Bjerregaard verður löglegur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×