Körfubolti

Jackson gæti látið lettneska einhyrninginn fara frá Knicks | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristaps Porzingis hefur verið frábær síðan hann kom inn í NBA-deildina.
Kristaps Porzingis hefur verið frábær síðan hann kom inn í NBA-deildina. vísir/getty
Phil Jackson, framkvæmdastjóri New York Knicks, er að gera alla stuðningsmenn félagsins brjálaða enn og aftur en nú íhugar hann alvarlega að láta lettneska kraftframherjann Kristaps Porzingis fara.

Jackson viðurkenndi í viðtali á MSG sjónvarpsstöðinni í gærkvöldi að Knicks er að hlusta á tilboð í leikmanninn sem hefur farið á kostum síðan hann var valinn fjórði í nýliðavalinu árið 2015.

„Við erum að fá símtöl. Eins mikið og við kunnum að meta hann og það sem hann hefur gert fyrir liðið fara menn að spá í hlutunum þegar leikmaður mætir ekki á fund,“ segir Jackson en leikmannamarkaðurinn í NBA er á fullu núna rétt fyrir nýliðavalið.

„Við höfum fengið símtöl og við hlustum á tilboð en það hefur ekkert komið inn sem heillar okkur. Eins mikið og við elskum þennan strák verðum við að gera það sem er gott fyrir félagið okkar.“

Porzingis er einstakur leikmaður því þrátt fyrir að vera 220 cm hár getur hann hreyft sig betur en margir risar í deildinni og skotið. Þá kom hann inn í deildina með mikla reynslu þrátt fyrir að vera aðeins 21 árs gamall í dag.

Hvað í ósköpunum gæti verið betra fyrir Knicks en að halda Lettanum? Hvað er Jackson að spá?

„Framtíðin. Hvað gæti þetta gefið okkur? Kannski tvo byrjunarliðsmenn og valrétt í nýliðavalinu. Kannski eitthvað meira en það. Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða. Við vitum að Porzingis er einhyrningur. Hann er einstakur,“ segir Phil Jackson.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×