Körfubolti

Sögulegur meistaratitill hjá Warriors

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Leikmenn Golden State lyfta bikarnum í nótt.
Leikmenn Golden State lyfta bikarnum í nótt. vísir/getty
Golden State Warriors varð NBA-meistari í nótt eftir 129-120 sigur á Cleveland Cavaliers í nótt. Warriors vann þar með rimmu liðanna 4-1 og tapaði aðeins einum leik í úrslitakeppninni.

Þetta er annar titill Warriors á síðustu þremur árum og ekkert sem bendir til annars en að liðið verði á toppnum á komandi árum. Sæt hefnd einnig fyrir Warriors sem missti niður 3-1 forskot gegn Cleveland fyrir ári síðan. Þetta er í fyrsta sinn í sögu deildarinnar sem lið fer í gegnum úrslitakeppnina og tapar aðeins einum leik.

Kevin Durant átti enn einn stórleikinn fyrir Warriors en hann skoraði 39 stig í nótt.  Hann var með rúmlega 35 stig að meðaltali í leik í úrslitaseríunni og var kosinn besti leikmaður úrslitanna.

Hann skoraði 176 stig í leikjunum fimm sem er það næsthæsta í fimm leikja seríu frá upphafi. Aðeins Allen Iverson hefur gert betur en hann skoraði 178 stig árið 2001.

Durant fær hér verðlaun frá Bill Russell fyrir að vera besti leikmaður úrslitanna.vísir/getty
Þetta er í fyrsta sinn sem Durant verður NBA-meistari. Það varð allt brjálað er hann yfirgaf Oklahoma fyrir ári síðan til þess að eiga meiri möguleika á því að verða meistari. Það hafðist á fyrsta ári.

Durant var fljótur að taka að sér leiðtogahlutverkið hjá Warriors og með hann í ótrúlegu formi áttu LeBron James og félagar í Cleveland aldrei möguleika.

Stephen Curry var einnig mjög öflugur í nótt með 34 stig en hann var mjög slakur í fjórða leiknum. Andre Igoudala skoraði 20 stig.

LeBron gerði hvað hann gat til þess að stöðva Warriors með 41 stigi í nótt en hann var með þrefalda tvennu að meðaltali í úrslitaeinvíginu. Kyrie Irving skoraði 26 stig og JR Smith 25.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×