
„Þetta er lifandi sönnun þess sem vakin hefur verið athygli á, bæði af okkur í FÍB og samkeppnisyfirvöldum, að álagning á eldsneyti er langt umfram það sem þekkist í nágrannalöndum okkar. Það er fagnaðarefni að það sé hrist upp í þessum markaði,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB. „Þetta verð mun hafa gífurleg áhrif á klassískum helsjúkum fákeppnismarkaði. Hinir munu lækka verð um leið því þeir vilja halda áfram að vera í bissness.“
„Við höfum bara verið að bíða eftir því að þeir myndu opna og sú tímamót eru komin núna. Við munum í framhaldinu skoða hvaða áhrif þetta hefur á markaðinn áður en við tökum ákvörðun,“ segir Jón Ólafur, forstjóri Olís. „Við munum einnig þurfa að sjá hvernig Costco spilar úr þessu til lengri tíma. Við vitum ekki hvort þetta sé tilboð dagsins eða hvort þeir haldi þessu verði til streitu. Auðvitað fylgjumst við gaumgæfilega með því við viljum veita samkeppnishæf verð.“
„Hundruð nýrra viðskiptakorta eru seld á hverjum degi núna og við erum mjög spennt fyrir opnun,“ segir Brett Vigelskas, framkvæmdastjóri Costco. Hann segir verðið á eldsneyti hjá Costco vera komið til að vera. „Við erum ekki að selja eldsneyti undir kostnaðarverði. Okkar markmið er að selja hágæðavöru á sem besta verði.“