Íslenski boltinn

Ágúst Gylfason um toppliði Stjörnunnar: Alvöru lið með alvöru karlmenn inn á vellinum

Elías Orri Njarðarson skrifar
Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis.
Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis. Vísir/Vilhelm
Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis var vonsvikinn með leik sinna manna í kvöld en liðið tapaði þá 3-1 á heimavelli á móti Stjörnunni í 5. umferð Pepsi-deildar karla.

„Við vissum alveg hverju við vorum að fara að mæta hér í kvöld. Þetta er gífurlega sterkt lið og mikil karlmennska í þessu liði og við mætum bara ekki til leiks með það hugarfar. Þeir voru bara miklu meira tilbúnir til þess að gefa allt í þetta en við vorum það ekki,“ sagði Ágúst Gylfason.

Leikmenn Fjölnis voru mjög daufir meirihlutann af leiknum og það þurfti að fá á sig þrjú mörk til þess að vakna til lífsins. Ágúst gerði þrjár breytingar í leiknum þegar Þórir Guðjónsson, Gunnar Már Guðmundsson og Ingimundur Níels Óskarsson komu inn á í seinni hálfleik.

„Við settum inn þrjá karlmenn inn í liðið sem voru tilbúnir til þess að mæta þeim og leikurinn snerist kannski aðeins við og við fengum allavega mark en kannski ekki mikið af færum það var erfitt að brjóta niður Stjörnumenn, þetta er alvöru lið og með alvöru karlmenn inn á vellinum,“ sagði Ágúst.

Fjölnir náðu í góð þrjú stig í síðustu umferð á erfiðum útivelli á móti FH. Fjölnismenn hefðu viljað ná að halda áfram á sigurgöngu en það þýðir ekkert að gefast upp eftir einn leik.

„Við höldum bara áfram, náðum frábærum sigri á móti FH. Það var mjög flottur leikur en þessi leikur hér í kvöld var allt öðruvísi. Þetta var miklu meiri ,,physical” leikur hér í kvöld og það var erfitt fyrir okkar stráka að mæta þessu og við guggnuðum á því,“ sagði Ágúst.

Næsti leikur Fjölnis er í bikarnum á móti ÍBV á útivelli og Ágúst er vongóður um góð úrslit úr þeim leik. „Við förum til Eyja í bikarnum og við ætlum okkur að komast þar áfram að sjálfsögðu,“ sagði Ágúst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×