Verjandi Thomasar Møller Olsen, skipverja af grænlenska togaranum Polar Nanoq sem grunaður er um að hafa banað Birnu Brjánsdóttur, kemur til með að reyna að færa sönnur á hvort Thomas hafi verið líkamlega fær um að bana Birnu laugardagsmorguninn 14. janúar síðastliðinn. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins. Verjandi Thomasar hefur farið fram á að leggja spurningar fyrir bæklunarlækni og réttarmeinafræðing.
Allt stefndi í að aðalmeðferð í málinu færi fram í júní en fyrirspurnirnar gætu orðið til þess að seinka þurfi aðalmeðferðinni fram yfir sumarfrí dómstólanna.
Thomas er ákærður fyrir manndráp og fyrir stórfelldan fíkniefnainnflutning. Hann á yfir höfði sér rúmlega sextán ára fangelsi.
Lögregla og ákæruvald telja sig hafa nokkuð sterkt mál í höndunum gegn hinum grunaða. Ljóst er af lífsýnum að Birnu voru veittir alvarlegir áverkar um borð í rauða Kia Rio bílnum sem hann hafði til umráða.
Þá hefur Thomas viðurkennt að hafa hitt Birnu og kysst hana. Hann neitar enn allri sök um að hafa banað henni.
