Íslenski boltinn

Ekki ljóst hver stýrir Blikunum á móti Stjörnunni á sunnudaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blikar spila heimaleik númer tvö á sunnudaginn eða eftir aðeins fjóra daga.
Blikar spila heimaleik númer tvö á sunnudaginn eða eftir aðeins fjóra daga. Vísir/Stefán
Pepsi-deildarlið Breiðabliks er enn þjálfaralaust eftir að Arnar Grétarsson var í gær rekinn sem þjálfari liðsins eftir aðeins tvær umferðir.

Forráðamenn félagsins gefa lítið upp um stöðu mála í leit að nýjum þjálfara og segja bara að þetta sé allt í vinnslu.

Blikar töpuðu tveimur fyrstu leikjum sínum í Pepsi-deildinni þar af öðrum þeirra á móti nýliðum KA á heimavelli. Blikar enduðu síðasta tímabil á tveimur tapleikjum og höfðu aðeins unnið 2 af síðustu 9 heimaleikjum sínum undir stjórn Arnar Grétarssonar.

Breiðabliksliðið æfir ekki í dag en næsta æfing liðsins er á morgun fimmtudag.

Stjórn knattspyrnudeildar Breiðabliks hittist í dag og fer yfir stöðu mála en það er stutt í næsta leik og þjálfaraleitin má því ekki taka of langan tíma.  

Blikar mæta Stjörnunni á Kópavogsvelli klukkan 20.00 á sunnudaginn kemur en þetta er sjónvarpsleikur á Stöð 2 Sport.

Sigurður Víðisson, aðstoðarþjálfari Breiðabliks, var ekki látinn fara samkvæmt heimildum íþróttadeildar en það er þó ekki ljóst hver aðkoma hans verður að Breiðabliksliðinu í framhaldinu.

Það er því ekki enn ljóst hver stýrir Blikum á móti Stjörnunni en margra augu verða á Smáranum á næstunni eða meðan Blikar finna út hver verður eftirmaður Arnars Grétarssonar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×