Íslenski boltinn

Andri Rafn: Mikil vonbrigði að fá ekkert úr þessum leik

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Andri Rafn í leik gegn KA í fyrstu umferð.
Andri Rafn í leik gegn KA í fyrstu umferð. Vísir/Stefán
„Það eru vissulega mikil vonbrigði að fá ekkert út úr þessu, mér fannst leikurinn vera í jafnvægi þar til þeir skora þessi mörk,“ sagði Andri Rafn Yeoman, miðjumaður Blika, svekktur að leikslokum.

Aðeins nokkrar mínútur liðu frá fyrsta marki Blika þar til vítaspyrna var dæmd á Kópavogsmenn sem annað markið kom upp úr.

„Við það kemur kafli sem menn missa aðeins fókus, detta úr skipulagi og reyna að gera eitthvað annað og við fáum á okkur annað mark sem var týpískt fyrir lið þegar hlutirnir eru ekki að detta með manni. Það gerir í raun út um leikinn þótt okkur hafi tekist að minnka þarna muninn.“

Sjá einnig:Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Breiðablik - Stjarnan 1-3 | Fyrsti sigur Stjörnunnar í Kópavogi í 23 ár

Blikar náðu að pressa Garðbæinga undir lokin en náðu ekki að kreista fram jöfnunarmark.

„Við gáfumst ekki upp, héldum áfram og náðum að gera þetta að leik aftur þar til þeir setja þetta mark á okkur hérna undir lokin. Það er jákvætt að sjá að menn höfðu enn trú á þessu þótt við værum undir.“

Andri sagði leikmenn lítið hafa velt sér upp úr þjálfaramálunum undanfarna daga.

„Menn eru auðvitað misjafnir eins og þeir eru margir en við horfðum bara á næsta leik og reyndum að koma klárir í hann. Við getum lítið verið að einbeita okkur að öðru á milli leikja.“

Blikar eru stigalausir eftir þrjár umferðir en framundan er verkefni í bikarnum þar sem Blikar mæta Fylki.“

„Stigin telja auðvitað jafn mikið hvenær sem þau koma og það eru bara þrjár umferðir eru búnar. Við verðum bara að fara inn í næsta leik og byrja að safna stigum. Við eigum næst leik gegn Fylki í bikarnum og stemmingin í kringum bikarinn hjálpar okkur vonandi inn á rétta braut.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×