
Samkvæmt vef Alþingis bíða 33 mál þess að komast í fyrstu umræðu, 67 mál eru enn til umræðu í nefndum, fimm mál bíða annarrar umræðu og aðeins eitt mál bíður þriðju umræðu. Það þarf því að halda verulega vel á spöðunum því fram undan eru sex þingfundadagar.
Ríkisstjórnarflokkarnir leggja mesta áherslu á ríkisfjármálaáætlun, haftamálin og jafnlaunavottun. Önnur frumvörp félagsmálaráðherra um jafnrétti á vinnumarkaði og nokkur frumvörp umhverfisráðherra eru á meðal þess sem gæti þurft að bíða betri tíma.
Hið margumtalaða áfengisfrumvarp, um að áfengi fari í almennar verslanir, næst ekki í gegn.
„Það eru mjög mörg þingmannamál sem liggja fyrir nefndinni. Ég er ekkert viss um að það nái einhver þingmannamál fram að ganga en það gæti vel verið að við afgreiðum einhver af þeim ef tími gefst til í lokin en þá komast þau mjög ólíklega á dagskrá þingsins,“ segir Áslaug Arna.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að stjórnarflokkarnir séu ekki byrjaðir að ræða við stjórnarandstöðuna um hvaða mál verði sett í forgang.
„Við erum í raun í þeirri stöðu að við erum ekki til í að ljúka einhverjum málum á hraðferð. Við eigum nógu mörg dæmi þar sem hreinlega hafa orðið mistök í lagasetningu því verið er að drífa málin í gegn með ónógri vinnu. Við höfum svolítið sagt að við ætlumst til þess að þau upplýsi um það hvaða mál þau leggi áherslu á. Það hefur ekkert skýrst neitt með það.“