Körfubolti

Skoraði 53 stig á afmælisdegi nýlátinnar systur sinna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Isaiah Thomas var í hjartnæmu viðtali eftir leikinn í nótt.
Isaiah Thomas var í hjartnæmu viðtali eftir leikinn í nótt. Vísir/Getty
Isiah Thomas átti stórleik og skoraði 53 stig fyrir Boston Celtics sem er komið í 2-0 forystu gegn Washington Wizards í undanúrslitum Austurdeildarinnar í leik liðanna í úrslitakeppni NBA í nótt.

Thomas vantaði bara eitt stig upp á að jafna stigamet Boston Celtics í úrslitakeppninni en eftir leik tileinkaði hann frammistöðu sína systur sinni, sem lést nýverið í umferðarslysi.

„Systir mín á afmæli í dag. Hún hefði orðið 23 ára og það minnsta sem ég gat gert er að spila fyrir hana,“ sagði Thomas en systir hans, Chyna, lést fyrir aðeins rúmum tveimur vikum.

„Fjölskyldan mín og vinir segja mér bara að halda áfram. Systir mín hefði ekki viljað að ég myndi hætta.“

„Það eina sem er að um leið og ég yfirgef íþróttahúsið þá tekur raunveruleikinn við og hún er ekki hér. Það er það sem er erfitt. Þegar ég ég er í þessari höll get ég einbeitt mér að því að spila og allt sem ég geri er fyrir hana.“

Boston lenti 2-0 undir gegn Chicago Bulls í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en það voru fyrstu leikir Thomas eftir að systir hans lést. Síðan þá hefur Boston unnið sex leiki í röð en þess má geta að Thomas skoraði 33 stig í sigri Boston á Washington í fyrsta leik liðanna.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×