Körfubolti

Thomas frábær með tárin í augunum og Boston er búið að jafna metin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Isaiah Thomas spilaði virkilega vel.
Isaiah Thomas spilaði virkilega vel. vísir/getty
Boston Celtics jafnaði í nótt rimmuna á móti Chicago Bulls í átta liða úrslitum austurdeildar NBA með 104-95 sigri á útivelli. Boston er búið að vinna tvo í röð í Chicago eftir að tapa fyrstu tveimur heima.

Boston hafnaði í efsta sæti austursins en Chicago rétt slefaði inn í úrslitakeppnina. Celtics-liðið varð þó fyrir áfalli þegar systir leikstjórnanda þess, Isaiah Thomas, lést í bílslysi skömmu fyrir fyrsta leik.

Thomas viðurkenndi eftir leikinn í nótt að vera engan veginn tengdur inn í leikina þar sem hann er eðlilega langt frá því að vera kominn yfir dauðsfall systur sinnar.

„Andlega og tilfinningalega er ég ekki til staðar. Ég nærist bara á því sem liðsfélagar mínir gera. Þeir veita mér mikið sjálfstraust. Ég gæti þetta ekki án liðsfélaga minna,“ sagði Thomas eftir leikinn í nótt.

Hann spilaði frábærlega og skoraði 33 stig auk þess sem hann gaf sjö stoðsendingar en Al Horford skilaði líka finni tvennu með fimmtán stigum og tólf fráköstum.

Jimmy Butler bar að vanda höfuð og herðar yfir Chicago-liðið í stigaskorun en hann setti 33 stig auk þess sem hann gaf níu stoðsendingar og tók fimm fráköst. Næsti leikur liðanna fer fram í Boston.

Utah Jazz jafnaði svo metin á móti LA Clippers með 105-98 sigri á heimavelli. Gamla brýnið Joe Johnson fór þar á kostum með 28 stigum af bekknum en Chris Paul skoraði 27 stig fyrir Clippers.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×