Körfubolti

Magic Johnson orðinn aðalmaðurinn hjá Los Angeles Lakers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magic Johnson.
Magic Johnson. Vísir/Getty
Það var stór tiltektardagur hjá Los Angeles Lakers í gær. Magic Johnson var þá ráðinn forseti félagsins en bæði framkvæmdastjórinn og varaforsetinn voru reknir.

Magic Johnson var kominn til starfa hjá Lakers fyrir nokkrum vikum og hann var fljótur að fá stöðuhækkun. Nú er hann orðinn aðalmaðurinn hjá Lakers og á hans ábyrgð að rífa liðið upp úr þeim öldudal sem það hefur verið í undanfarin ár.

Það er ekki bara að Magic fá stjórnina heldur voru þeir sem stýrðu á undan honum hreinlega reknir um leið. ESPN sagði meðal annars frá.

Mitch Kupchak var búinn að vera í 30 ár með Lakers, fyrst sem leikmaður en hann hafði verið framkvæmdastjóri félagsins undanfarin 17 ár.

Jim Buss vann í 19 ár fyrir félagið þar af var hann búinn að vera varaforseti í tólf ár. Það var systir hans, Jeanie Buss, sem rak bróður sinn.

Los Angeles Lakers hefur misst af úrslitakeppninni undanfarin þrjú tímabil og sigurhlutfall liðsins undanfarin fjögur ár er aðeins 27,6 prósent. Það er aðeins Phildelphia 76ers sem er með verra sigurhlutfall á þessum tíma.

Lakers er eins og er með þriðja versta sigurhlutfallið í NBA á þessu tímabili og það er fátt sem kemur í veg fyrir að liðið missi af úrslitakeppninni fjórða árið í röð.  



Magic Johnson var andlit Los Angeles Lakers í meira en áratug og varð fimmfaldur meistari með liðinu. Hann hefur komið aftur og aftur til félagsins eftir að hann lagði skóna óvænt á hilluna haustið 1991 eftir að hafa greinst með HIV-veiruna.

Nú bíða stuðningsmenn Lakers-liðsins spenntir eftir því hvað gerist í framhaldinu. Magic var mikill sigurvegari sem leikmaður og óhræddur við að fara eigin leiðir innan sem utan vallar. Hann segist ætla að taka áhættu enda veit hann að það þarf eitthvað mikið gott að gerast ætli Lakers að komast aftur í hóp bestu liða NBA-deildarinnar.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×