Ekki hefur verið boðað til nýs fundar í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna, eftir að sjómenn höfnuðu gagntilboði þeirra síðarnefndu í gær. Deiluaðilar hafa fundað stíft í sitt hvoru lagi í allan morgun og hafa neitað að ræða við fjölmiðla.
„No comment,“ sagði Konráð Alfreðsson, varaformaður Sjómannasambands Íslands, í samtali við fréttastofu í morgun, og hafa sambærileg svör fengist frá öðrum úr forystu sjómanna og útvegsmönnum í dag.
Sem fyrr segir höfnuðu sjómenn síðdegis í gær gagntilboði Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi við tilboði sem sjómenn lögðu fram sem svonefnt lokatilboð í fyrradag. Þó virðast deilendur vera tilbúnir til að halda áfram viðræðum.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsvegsráðherra sagði í gær að hún hefði ekki heyrt frá deilendum í hverju vandinn lægi, en í skilaboðum til fréttastofu í morgun sagðist hún tilbúin til óformlegra viðræðna ef óskað væri eftir því. Slíkar óskir hafi hins vegar ekki borist.

