Körfubolti

Spurs hélt Westbrook stigalausum í fjórða leikhluta

Tómas Þór Þórðarson skrifar
San Antonio Spurs vann annan leikinn í röð í NBA-deildinni í körfubolta í nótt þegar liðið lagði Oklahoma City Thunder á heimavelli, 108-94. Liðið er nú fjórum sigrum á eftir Golden State Warriors í baráttunni um efsta sæti vesturdeildarinnar.

Kawhi Leonard átti stórleik fyrir Spurs en hann skoraði 36 stig, tók átta fráköst og gf fjórar stoðsendingar. LaMarcus Aldrige bætti við 25 stigum fyrir heimamenn auk þess sem hann tók sex fráköst.

Eins og alltaf var Russell Westbrook stigahæstur í liði Oklahoma City en hann skoraði 27 stig, tók sex fráköst og gaf fjórtán stoðsendingar. Hann hitti úr þremur af sjö þriggja stiga tilraunum sínum og öllum tíu vítaskotunum.

Westbrook, aftur á móti, var ískaldur í fjórða leikhluta þar sem Spurs-liðið spilaði góða vörn á hann og hélt honum stigalausum síðustu tólf mínútur leiksins. Það lagði grunninn að nokkuð öruggum sigri heimamanna.

Thunder er búið að tapa tveimur leikjum í röð og sigur í sjöunda sæti vesturdeildarinnar með 28 sigra og 21 tapleik en langt er í Denver Nuggets í áttunda sætinu sem er búið að vinna 21 leik.

Úrslit næturinnar:

Washington Wizards - New York Knicks 117-101

Toronto Raptors - New Orleans Pelicans 108-106

Houston Rockets - Sacramento Kings 105-83

San Antonio Spurs - OKC Thunder 108-94

Portland Trail Blazers - Charlotte Hornets 115-98

LA Lakers - Denver Nuggets 120-116

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×