Ákvörðun um hvort farið verði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir mönnunum tveimur sem grunaðir eru um að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana fyrir rúmum hálfum mánuði verður tekin fyrir hádegi á morgun.
Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókn á máli Birnu, í samtali við Vísi. Gæsluvarðhaldsúrskurðurinn yfir mönnunum tveimur var til tveggja vikna en rennur að óbreyttu út á morgun. Engin játning liggur fyrir í málinu.
Annar þeirra grunuðu var yfirheyrður í dag og var yfirheyrslum við það að ljúka að sögn Gríms þegar Vísir náði af honum tali rétt fyrir klukkan níu í kvöld. Hann segir lögregluna enn ekki vita hvar líki Birnu var komið fyrir en hún fannst í fjörunni við Selvogsvita átta dögum eftir að hún hvarf. Þá liggur ekki fyrir hvenær dags Birna lést.
„Ég veit ekki hvort það verður hægt að sjá það, en það er þá hluti af skýrslu réttarmeinafræðingsins,“ segir Grímur í samtali við Vísi.
Endanleg niðurstaða í krufningsskýrslu liggur ekki heldur fyrir þó staðfest hafi verið að Birnu hafi verið ráðinn bani. Þá telur lögreglan sig vita hvernig henni var ráðinn bani en hefur ekki viljað tjá sig nánar um það.
Birna Brjánsdóttir verður borin til grafar á föstudaginn.

