Lögreglan býst ekki við að yfirheyra manninn, sem grunaður er um aðild að dauða Birnu Brjánsdóttur, yfir helgina. Þetta segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn, sem stjórnar rannsókn málsins, í samtali við Vísi.
Maðurinn var úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald og einangrun á fimmtudag vegna málsins og hefur ekki verið yfirheyrður síðan. Grímur segir lögreglu halda áfram að rannsaka allar hliðar málsins yfir helgina en staðan verði tekin á mánudag og þá tekin ákvörðun um frekari yfirheyrslur.
Birna hvar aðfaranótt laugardagsins 14. janúar síðastliðinn. Hún sást síðast á gangi við Laugaveg 31 klukkan 05:25 umrædda laugardagsnótt. Lík hennar fannst svo við Selvogsvita í Ölfusi átta dögum síðar, 22. janúar síðastliðinn.
Maðurinn sem sætir gæsluvarðhaldi og einangrun er sá sem lögregla telur að hafi ekið Kia Rio-bifreið í miðbæ Reykjavíkur um það leyti sem Birna hvarf.
Lögreglan hefur greint frá því að lífsýni sem fannst í bílnum sé úr Birnu og það sé staðfesting á því að hún hafi verið í bílnum.
Annar maður var í haldi vegna rannsóknar málsins en honum var sleppt úr haldi í gær eftir tveggja vikna einangrunarvist. Hann var leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness á fimmtudag þar sem hann staðfesti þann framburð sem hann hafði gefið hjá lögreglu. Hann var ekki látinn sæta farbanni og fór til Nuuk á Grænlandi með áætlunarflugi Flugfélags Íslands síðastliðið fimmtudagskvöld.
Engar yfirheyrslur fyrirhugaðar yfir helgina

Tengdar fréttir

Leitin að Birnu jók styrki Landsbjargar
Um fjórar milljónir króna hafa safnast til Landsbjargar í einstökum styrkjum eftir að leitin að Birnu Brjánsdóttur hófst. Metfjöldi hefur skráð sig í svokallaða bakvarðasveit til að styrkja björgunarsveitirnar mánaðarlega. Birna var ja

Fjölmenni kvaddi Birnu
Birna Brjánsdóttir var jarðsungin frá Hallgrímskirkju í gær.