Grímur segir að verið sé að fylgja eftir vísbendingu sem barst frá borgara um helgina en vildi ekki fara nánar út í málið.
Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir í samtali við Vísi að sérhæft leitarfólk frá björgunarsveitum af Suðurlandi og Suðurnesjum muni taka þátt í leitinni sem hefst klukkan 13 í dag og mun standa fram í myrkur ef þörf er á því.
Er áherslan lögð á svæði frá Hlíðarvatni, að Herdísarvík og Selvogsvita.
Einn er í gæsluvarðhaldi grunaður um aðild að dauða Birnu. Hann var úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald og einangrun í Héraðsdómi Reykjaness síðastliðinn fimmtudag. Hann hefur ekki verið yfirheyrður frá því hann var úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald en Grímur Grímsson sagði í samtali við Vísi í gær að hann yrði ekki yfirheyrður yfir helgina en staðan verður tekin á morgun og þá ákveðið hvað verður gert í framhaldinu. Játning liggur ekki fyrir í málinu.
