Körfubolti

Öllum fimm meistarahringum Derek Fisher stolið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Derek Fisher varð á sínum tíma fimm sinnum NBA-meistari með liði Los Angeles Lakers en nú á hann ekki lengur meistarahringana sína fimm.

Þjófar brutust inn á heimili hans í Los Angeles en Fisher var ekki heima þegar innbrotið var framið.

Derek Fisher yfirgaf heimili sitt klukkan 7.30 um morguninn og varð strax var við það að einhverjir hefðu brotist inn þegar hann kom til baka þremur klukkutímum seinna.

TMZ var fyrst til að segja frá innbrotinu en þjófarnir stálu ýmiskonar skartgripum frá Derek Fisher þar á meðal NBA-hringunum fimm.  

Lögreglan tekur að innbrotsþjófarnir hafi komist inn um hliðardyr og þeir telja að virði þýfisins sé um 300 þúsund dollarar eða tæpar 35 milljónir íslenskra króna. Sú upphæð ætti nú að vera hærri ef allir hringarnir eru með í pakkanum.

Derek Fisher varð NBA-meistari með Los Angeles Lakers liðinu 2000, 2001, 2002, 2009 og 2010.

Derek Fisher spilaði fyrst með Lakers-liðinu frá 1996 til 2004 en svo aftur frá 2007 til 2012.

Hann reyndi fyrir sér sem þjálfari New York Knicks frá 2014-15 en var látinn vara í byrjun febrúar 2016 eftir að liðið vann aðeins 40 af 136 leikjum undir hans stjórn.

Það hefur ekki gengið alltof vel hjá kappanum eftir að ferlinum lauk en hann lenti líka í vandræðalegum deilum við núverandi NBA-leikmanninn Matt Barnes eftir að Fisher var kominn í samband með fyrrum eiginkonu Matt Barnes.  

Það mál endaði með handalögmálum milli þeirra Derek Fisher og Matt Barnes og í framhaldinu út um alla fjölmiðla í Bandaríkjunum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×