Innlent

Margmenni á bænastund fyrir Birnu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Margmenni var samankomið í Hallgrímskirkju í kvöld á bænastundinni.
Margmenni var samankomið í Hallgrímskirkju í kvöld á bænastundinni. vísir/anton brink
Fjöldi fólks var samankominn á bænastund í Hallgrímskirkju í kvöld, sem haldin var til stuðnings fjölskyldu Birnu Brjánsdóttur, sem hvarf sporlaust á aðfaranótt laugardags í miðbæ Reykjavíkur.

Bænastundin var haldin að frumkvæði fjölskylduvina fjölskyldu Birnu en þeir hafa verið með Sigurlaugu Hreinsdóttir, móðir Birnu í bænahóp.

Athöfnin hófst klukkan 21:00 og mætti margmenni til kirkjunnar til að sýna fjölskyldu Birnu stuðning. Bænastundin var falleg og fór hún fram undir handleiðslu séra Bjarna Þórs Bjarnasonar og Sigurðar Árna Þórðarsonar, sóknarprests í Hallgrímskirkju. Björn Steinar Sólbergsson lék á orgel og Hallfríður Ólafsdóttir spilaði á þverflautu. 

Í samtali við Vísi segir Bjarni að bænastundin hafi verið vel sótt og hugljúf. „Kirkjan var troðfull, þetta var mjög falleg stund og það var mikill samhugur í fólki“ segir Bjarni en í lok stundarinnar var kveikt á kertum. 

„Hugurinn er hjá Birnu og hjá fólkinu hennar“ segir Bjarni sem segir að mikil samstaða hafi einkennt kvöldið. „Við höldum bara áfram að biðja fyrir henni og fjölskyldu hennar.“

Rannsókn lögreglu á hvarfi Birnu er í forgangi hjá lögreglu. 

„Kirkjan var troðfull, þetta var mjög falleg stund og það var mikill samhugur í fólki,“ segir séra Bjarni..Vísir/Anton Brink
„Hugurinn er hjá Birnu og hjá fólkinu hennar.“Vísir/Anton Brink



Fleiri fréttir

Sjá meira


×