Körfubolti

Curry-bræðurnir mætast í kvöld | Sá yngri við frostmarkið í síðasta leik þeirra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þetta verður stórt kvöld fyrir Curry-fjölskylduna þegar bræðurnir Seth og Stephen mætast með liðum sínum í NBA-deildinni í körfubolta. Golden State Warriors tekur þá móti Dallas Mavericks.

Golden State Warriors er á toppnum í Vesturdeildinni en Dallas Mavericks er á botninum. Þetta verður í annað skiptið sem bræðurnir mætast í vetur og í fimmta skiptið á ferlinum. Seth Curry á ekki góðar minningar frá fyrri leiknum í nóvember.

Seth Curry, sem er 26 ára og tveimur árum yngri en Stephen Curry, á vissulega harma að hefna frá leik liðanna sem Golden State vann með 21 stigs mun eftir að hafa komist mest 33 stigum yfir.

Seth Curry hefur verið í skugganum á stóra bróður og hann spilaði líka þannig þegar þeir mættust í fyrsta skiptið í vetur.

Seth Curry var frostmark í þeim leik enda klikkaði hann á 13 af 17 skotum sínum þar af 7 af 9 þriggja stiga skotum. Hann endaði leikinn með 10 stig og 9 stoðsendingar.

Stephen Curry var aftur á móti með 24 stig og 6 stoðsendingar en hann hitti úr 8 af 12 skotum sínum þar af 4 af 8 fyrir utan þriggja stiga línuna. Steph hefur bæði skilað betri tölum og unnið allar viðureignir sínar á móti litla bróður.

Seth Curry hefur misst sæti sitt í byrjunarliðinu síðan í leiknum í nóvember en hann er með 10,1 stig og 3,0 stoðsendingar að meðaltali á 26,7 mínútum í leik. Þetta er hans fimmta lið á fjórum árum en hann lék áður með Sacramento Kings, Phoenix Suns, Cleveland Cavaliers og Memphis Grizzlies. Tímabilið í ár er það besta hjá honum hingað til.

Stephen Curry hefur aftur á móti spilað alla tíð með Golden State Warriors en hann er með 24,2 stig og 5,9 stoðsendingar að meðaltali í leik sem eru lægri tölur en í fyrra þegar hann var kosinn bestur annað árið í röð.  Curry var með 30,1 stig og 6,7 stoðsendingar í leik í fyrra.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×